Hólmavíkurrall BÍKR – Upplýsingaskýrsla 1

Upplýsingaskýrsla 1

Eins og þið hafið vafalaust tekið eftir hefur verið opnað fyrir skráningu í Hólmavíkurrall 2018! Hægar en mig grunaði hefur gengið að manna rallið og sjáum við ekki fram á að geta sleppt kvöðinni – því miður! En við reyndum að vera sanngjörn og er kvöðin 10.000 kr.-

Leiðarskoðun verður eins og fram hefur komið föstudaginn 29. júní. Leiðarnar eru 4 og þar af er ein keyrð í báðar áttir – sem sagt 5 leiðir að nóta niður. Keppendum verður skipt niður í leiðarskoðun – fyrri helmingur skoðar Þorskafjarðarheiði og Kaldrananes fyrir hádegi og svo Eyrarfjall og Vatnsfjarðarnes eftir hádegi og öfugt fyrir hinn hópinn. Gert er ráð fyrir 2 ferðum á hverri leið – ein í að nóta og ein í að fara yfir nóturnar.

Senda skal upplýsingar um bifreið sem skoða skal á – Bílnúmer, gerð og lit á Sigurast23@simnet.is fyrir fimmtudagskvöldið 28. júní. Fyrir leiðarskoðun fá allar áhafnir 2 límmiða sem settir eru í fram og afturrúðu þeirrar bifreiðar sem skoða skal á með keppnisnúmeri sínu. Þetta er gert sem liður í að sporna gegn hverskyns glæfra akstri í leiðarskoðun þar sem stærstu áhyggjur heimamanna hafa verið hraðakstur.

Við keppnishaldarar verðum á svæðinu og fylgjumst með leiðarskoðun. Einnig verður lögreglu gert viðvart og mun fylgjast með. Í stuttu máli – allir eiga að keyra löglega.

  • 1 brot = aðvörun
  • 2 brot = 15.000 kr sekt
  • 3 brot = brottrekstur úr keppni

Keppnisskoðun verður þriðjudaginn 24. júní kl 18 í húsnæði Hertz í Selhellu 5 Hafnarfirði.

Gert er ráð fyrir einni servis bifreið á áhöfn. Ekki verður „elti servis“ heldur meira í takt við keppnina í fyrra fyrir þá sem muna og verður „remoteservis“ eða „milliservis“ á fyrirfram ákveðnum stöðum. Munum dúkinn og ruslapoka.

Hádegishlé verður á Hólmavík við tjaldsvæðið þar sem gestir og gangandi munu geta skoðað bílana og það sem fram fer – endilega verum snyrtileg og til fyrirmyndar!

Kvartanir bárust í fyrra, einkum frá íbúum Drangsness um hraðakstur rallýbíla í gegnum þorpið. Við þurfum ekkert að tauta um að þetta er náttúrulega ekki í boði. Pössum okkur og verum áfram velkomin á þessar slóðir.

Rallið er hratt og verða settar upp þrengingar. Þær verða mjög vel merktar með aðvörunarskiltum beggja megin vegarins í bæði 100 og 50 m fjarlægð frá þeim.

Gott að vita :

Búðin á Hólmavík er opin til 22.30

-hægt er að fá þar heitan mat í veitingasölunni. Gott að vita t.d í hádeginu bæði á föstudag og laugardag! ☺

Sundlaugin á Hólmavík er opin til kl 21

Á Hólmavík er að finna Vínbúð (fyrir þyrsta á laugardagskvöld)

Einnig er að finna þar við hliðina þúsundþjalabúð þar sem ótrúlegustu hlutir finnast sem vafalaust geta bjargað röllurum í neyð.

Hvet fólk til að versla við heimamenn ☺

Ást og friður þangað til næst

Ásta og Co

8467415