Úrskurður dómnefndar v/ umferðalagabrots

Reykjavík 25. ágúst 2018.

 

Dómnefnd í Rallý Reykjavík 23. – 25. ágúst 2018 barst eftirfarandi erindi í tölvupósti frá keppnisstjóra, föstudaginn 24. ágúst 2018, kl. 23:00.

,, Til dómnefndar Í RR 2018 b.t. Ragnars Róberstssonar formanns Keppnisstjórn í Rally Reykjavík 2018 hefur borist fjölmargar ábendingar, bæði frá starfsmönnum keppninnar og öðrum keppendum um ógætilegan og mikinn hraðakstur bíls. nr, 41 á ferjuleið milli Berserkjahrauns 2 og Skíðsholts. Jafnframt að lögregla hafi stöðvað för bíls nr. 41 á fyrrnefndri ferjuleið og ökumaður verið tekinn til viðtals inni í lögreglubifreiðinni. í grein 4.4.1 um rallýkeppnir segir að keppendur skuli fylgja íslenskum umferðarlögum meðan á keppni stendur. Hinsvegar finnum við ekki í reglunum skýr fyrirmæli um refsingar eða hvernir fara skuli með tilfelli eins og að framan er lýst. Því óska ég eftir að dómnefnd fjalli um málið. F.h. keppnisstjórnar í Rallý Reykjavík 2018 Borgarnesi 24. ágúst kl. 23.00 Hanna Rún Ragnarsdóttir“

 

Í erindi keppnisstjórnar til dómnefndar er vísað til greinar 4.4.1 í reglum AKÍS þ.e. Rallýreglum 2018, samþykktum 28. nóvember 2017 en sú grein er undirgrein greinar nr. 4.4.

Grein nr. 4.4, Umferð, í reglum AKÍS þ.e. Rallýreglum 2018, samþykktum 28. nóvember 2017 er svohljóðandi:

,,4.4.1. Keppendur skulu á meðan á keppni stendur hlíta íslenskum umferðalögum og reglum.

4.4.2 Keppandi sem brýtur umferðarlög eða reglur skal stöðvaður af lögreglu eða starfsmönnum keppninnar, sem sáu brotið og honum tilkynnt það, á sama hátt og um væri að ræða venjulegan ökumann í umferðinni.

4.4.2.1. Ákveði lögregla að stöðva ekki ökumann sem brotið hefur af sér, mega þeir samt sem áður fara fram á refsingu samkvæmt reglum þessum á eftirfarandi hátt:

                   4.4.2.1.1. Með því að tilkynna brotið opinberlega og skriflega áður en rásröð næsta áfanga er formlega tilkynnt samkvæmt dagskrá;

4.4.2.1.2. Að opinberar skýrslur séu það nákvæmar að þær sanni án nokkurs vafa hvaða ökumaður átti í hlut og að auki séu staðsetning brotsins og tímasetning þess nákvæm.

4.4.2.1.3. Að ekki sé hægt að túlka á mismunandi hátt sannanirnar.“

Í framhaldi af erindi keppnisstjórnar hélt dómnefnd stuttan símafund í dag kl. 00:30, með keppnisstjóra og aðstoðarkeppnisstjóra. Fyrir hönd dómnefndar mættu til fundarins Ragnar Róbertsson formaður dómnefndar og Katrín María Andrésdóttir.

Eftir fund með keppnisstjórnum liggur eftirfarandi fyrir, skv. upplýsingum frá keppnisstjórum:

  1. Fyrir liggur munnleg staðfesting frá keppnisstjórum um frásagnir vitna sem benda til þess að áhöfn bifreiðar nr. 41 hafi, á ferjuleið milli sérleiða 10 og 11, þ.e. Berserkjahrauns B og Skíðsholts A, ekið keppnisbifreið sinni umfram leyfilegan hámarkshraða á þjóðvegi nr. 54, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Jafnframt að viðkomandi áhöfn hafi þar verið stöðvuð af lögreglu.
  2. Engin opinber gögn liggja fyrir um meint brot áhafnar nr. 41.
  3. Ekki liggja fyrir ákvæði í sérreglum keppninnar þar sem keppendur veita heimild til að keppnishaldari kalli eftir upplýsingum frá opinberum yfirvöldum um brot eða meint brot þeirra á umferðarlögum nr. 50/1987.
  4. Búið er að birta opinberlega rásröð fyrir næsta áfanga(legg) keppninnar og var það gert á vefsvæði Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur, http://bikr.is/upplysingaskyrsla-6, þar sem opinber upplýsingamiðlun vegna keppninnar fer fram. Var það gert áður en dómnefnd fékk málið til meðferðar.

 

Grein 3.3.4 í reglum AKÍS þ.e. Rallýreglum 2018, samþykktum 28. nóvember 2017 er svohljóðandi:

,,3.3.4. Meðan á könnunardögum og allri keppninni stendur, mun keppendum sem aka of hratt eða á þann máta, að mati keppnisstjórnar, að það valdi eða geti valdið hættu eða óþægindum fyrir aðra vegfarandur eða almenning, verða refsað sem hér segir:

3.3.4.1. Fyrsta brot, skrifleg áminning.

3.3.4.2. Annað brot, sekt að upphæð kr. 10.000,-.

3.3.4.3. Þriðja brot, rásheimild neitað.

3.3.5. Gagnvart grein 3.3.4 og undirreglum hennar er ákvörðun keppnisstjóra með samþykki dómnefndar endanleg. Gildir þar einu hvort kæra kemur frá löggæsluyfirvöldum eður ei og einnig óháð því hver útkoma yrði í slíku máli. Ekki er hægt að kæra eða áfrýja ákvörðun þessari og keppnisjgöld verða ekki endurgreidd.“

Ekkert hefur verið gefið út í sérreglum keppninnar sem tekur til þess að ákvæði greinar 3.3.4. eigi ekki við í keppninni og horfir því dómnefnd til hennar við afgreiðslu erindisins.

Dómnefnd samþykkir eftirfarandi:

,,Áhöfn bifreiðar nr. 41 í Rallý Reykjavík 23. – 25. ágúst 2018 er hér með áminnt um að hlíta í hvívetna ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987. Einungis er heimilt að víkja frá ákvæðum um hámarkshraða þegar ekið er um sérleiðar sem lokaðar hafa verið almennri umferð“.

 

 

  1. ágúst 2018

Ragnar Róbertsson

Katrín María Andrésdóttir

Þórarinn Þórsson