Hamingjurall – Upplýsingaskýrsla 4

Upplýsingaskýrsla 4

Ætla að byrja á að tuða smá og minna fólk á að borga starfsmannakvöðina ef ekki stendur til að skaffa fólk. Ég setti inn í gær beiðni um að fólk gæfi mér nú upplýsingar um starfsfólk upp á mat og annað. Þegar fyrri skráningu lauk í gær höfðu 4 áhafnir borgað kvöðina og sama núna í skoðuninni en ekki komið eitt hóst né stuna um starfsfólk. Pínu súr Ásta

En nóg um það – við þiggjum enn fólk!

Leiðarskoðun fer fram á föstudaginn eins og frægt er orðið. Fyrstu 9 í rásröð byrja á að skoða Eyrarfjall og Vatnsfjarðarnes frá kl 8:00-12:30 og Þorskafjarðarheiði og Kaldrananes frá klukkan 13:30-18:00. Seinni 8 í rásröð byrja hinsvegar á Þorskafjarðarheiði og Kaldrananesi og skella sér svo á Eyrarfjallið og Vatnsfjarðarnesið eftir hádegi.Tímarnir ættu að vera rúmir fyrir leiðarskoðun og gert er ráð fyrir hádegishléi þarna á milli. Tilboð verða á hamborgara í veitingasölunni á Hólmavík en þeir bjóða einnig upp á heitan rétt á borð við súpu og brauð. Bensín, kaffi og með því má finna á hótel Reykjanesi í nálægð við Vatnsfjarðarnesleið.

Við minnum á að Eyrarfjall er keyrt í báðar áttir og þar, líkt og auðvitað allstaðar þarf að gæta fyllstu varúðar við leiðarskoðun – þar sem umferð er í báðar áttir.

Við verðum með stóra, fína, hvíta partýtjaldið okkar á tjaldsvæðinu á Hólmavík og verður það soldið miðstöðin okkar. Þangað þurfa allir að kíkja á fimmtudagskvöld eða þegar þeir mæta á föstudagsmorgun og fá hjá okkur merkingar á bæði leiðarskoðunar og servisbíla. Ég verð örugglega vöknuð fyrir allar aldir – annars bara að hringja 846-7415 ☺

Einnig minni ég á að senda mér meil með upplýsingum um skoðunarbifreið á sigurast23@simnet.is.

Rásröð hefur verið birt. Við gerum ekki ráð fyrir að endurraða í hádegi en áskiljum okkur rétt til að gera svo, teljum við þörf á því.

Ást og friður

Fyrir hönd Hólmavíkurskipuleggjara

Ásta